Panel manía
Veggirnir á efri hæðinni voru svo skemmtilegir undir klæðningu og striga. Panell af öllum stærðum, gerðum og litum. Nokkrir stungu upp á að klæða veggina með gifsplötum en það kemur ekki til greina í okkar huga. Við erum hrifin af panelnum eins og hann er og það kemur mjög vel út að mála hann.
Við vitum ekki alveg afhverju hann er svona marglitaður, en ætli fjalirnar séu ekki endurunnar úr öðrum húsum. Við ímyndum okkur allavega að ekkert hafi farið til spillis árið 1905.
Þessir veggir myndu sóma sér í Geysisverslun í núverandi mynd, en þetta er fullmikið af hinu góða fyrir heimili. Svo við málum megnið af þeim, en nokkrir vel valdir fá að njóta sín, í bili að minnsta kosti.
Áður en hægt var að gera nokkuð varð að þrífa veggina, en þeir voru mjög sótugir frá þeim tíma sem arinn var í húsinu. Því næst fúguðum við í allar raufar eins og í svefnherbergjunum.
Svo var grunnað og málað. Sami grunnurinn (stopper frá Flugger) og sami liturinn (hálfur apótek) og niðri. Litirnir undir eru dökkbláir, rauðir og allskonar svo það þurfti amk þrjár umferðir, eða eina af grunni og tvær af málningu, til að það sjáist ekki í gegn.
Loftin fengu sömu meðferð, en við fúguðum líka þar, grunnuðum og máluðum með sömu möttu loftamálningu og niðri.
Mögulega þarf að fara eina umferð í viðbót yfir allt þegar framkvæmdum lýkur á eftir hæðinni, eftir að gólfin hafa verið löguð, eldhús komið upp og svo framvegis.
Staðan á gólfinu er efni í nýja færslu svo ekki fara langt :)