Burðarbitar
Það hefur dágóður tími farið í alls konar föndur við burðarbita í húsinu. Við fundum fúna bita innan í vegg sem við tókum, og svo vantaði aðeins meiri burð undir loftið.
Við fjarlægðum nefnilega nánast alla veggi á efri hæðinni og þó þeir hafi allir verið léttir þá veittu þeir einhvern stuðning undir loftið.
En fyrst að fúnu bitunum. Af stigapallinum og inn í borðstofu var veggur með litlu hurðargati. Til að reyna að nýta plássið sem best varð sá veggur að fara. Það var smá (mikið) vesen þar sem rafmagnstaflan var á þeim vegg. En rafvirkinn okkar, snillingurinn hann Kristján, leysti þetta fyrir okkur.
Fyrir allar breytingar - Mynd frá Fjárfesting fasteignasala
Búið að berstrípa
Veggurinn rifinn
Einu sinni var útidyrahurðin þarna. Þegar húsið var bara ein hæð var gengið inn þarna á hliðinni svo væntanlega hefur hurðin verið eitthvað óþétt eða vatn lekið inn með öðrum hætti, en inni í veggnum voru fúnir burðarbitar og gólfborðin í þessum enda voru líka fúin. Allt var þurrt, enda var þetta síðast útidyrahurð fyrir um 80 árum.
Fúi í bitum og gólfborðum
Bitunum var skipt út fyrir nýja, og fúnu gólfborðunum líka. Þegar þessi vinna átti sér stað vorum við ekki búin að ákveða að fara í vinnu á öllu gólfinu, svo það þarf að rífa upp nýju gólfborðin aftur til að einangra undir, þegar þar að kemur.
Til að koma fyrir tenglum og rofum sem voru í veggnum áður, lokuðum við hluta af honum aftur. Til þess notuðum við panel sem var í gamla veggnum.
Þessir litir...
Til að auka stuðning við loftið settum við síðan burðarbita þar sem veggirnir voru áður.
Skábitar styðja undir
Gamall biti og nýr
Það á eftir að ganga frá þeim endanlega, sem og pússa og hefla aðeins til. Svo verða þeir olíubornir en planið er að dekkja þá svolítið.