Gólfin, aftur
Okkur finnst við endalaust vera að tala og skrifa um gólfin á efri hæðinni, en þetta er líka búið að vera sagan endalausa. Sem sér loksins fyrir endann á og mikil gleði í gangi með það. En rifjum aðeins upp ferlið.
Árið er 2016 eða byrjun árs 2017. Fleiri lög af gólfefnum voru rifin upp ofan af upprunalegu gólfborðunum. Þau voru þakin dúkalími sem við pússuðum af og ætluðum að láta þar við sitja. Ítarlegri færsla um forvinnuna
En það vantaði betri stuðning undir gólfborðin svo við þurftum að bæta við burðarbitum, og einangruðum milli hæða í leiðinni.
Síðan ætluðum við einfaldlega að leggja gömlu gólfborðin aftur niður en það var hægara sagt en gert. Þau eru upprunaleg síðan húsið var byggt 1905 og misþykk og undin. Húsbóndinn vann þrekvirki við að leggja þau á stofuna en svo urðum við að játa okkur sigruð og lögðum ný furuborð á restina.
Munurinn á gömlu og nýju
Það var síðan í mars síðastliðnum sem átti að klára að pússa og olíubera en það gekk því miður ekki sem skyldi. En núna á dögunum fengum við Ella frá INNGÓ til að klára þetta fyrir okkur og útkoman er alveg æðisleg. Hann pússaði, litaði og olíubar fyrir okkur svo loksins er hægt að útskrifa gólfið og fara að flytja upp á efri hæðina.
Gamla furan tekur allt öðruvísi við litnum og olíunni en sú nýja, ótrúlega flott.
Það er verið að mála síðustu umferðir uppi, svo fljótlega verður hægt að fara flytja upp. Ekki seinna vænna, en við þurfum að fara undirbúa fyrir stækkun fjölskyldunnar í ágúst.
Af öðrum framförum er það að frétta að ofninn sem við biðum svo lengi eftir er kominn á sinn stað og hefur verið tekinn í notkun. Erum mjög ánægð með þessi tæki.
Annars er sumarið bara komið hérna við lækinn og veðurblíðan vel nýtt til að gera fínt í kringum húsið.
Þar til næst, gleðilega þjóðhátíð!